Krafa frá kennurum til sveitarfélaga

Við, grunnskólakennarar á Íslandi, krefjumst þess að sveitarfélögin á landinu bregðist án tafar við því alvarlega ástandi sem skapast hefur í skólakerfinu vegna hættulegra og rangra áherslna í kjarastefnu sveitarfélaga gagnvart grunnskólakennurum. Laun kennara eru of lág og valda því með öðru að grunnskólakerfið er ekki lengur sjálfbært. Þeir kennarar sem nú starfa í grunnskólunum njóta mun verri kjara en samanburðarhópar og raunar töluvert lægri kjara en almennt tíðkast á landinu. Nú eru samningar okkar lausir og hafa verið lengi. Mánuðum saman hafa sveitarfélögin haft tíma og tækifæri til að bregðast við bráðum vanda. Ekkert bólar á viðbrögðum og samninganefnd sveitarfélaga virðist enn ekki hafa umboð til neins nema að endurtaka leikinn frá því í sumar og bjóða áfram óboðleg kjör. 

Margir fulltrúar sveitarfélaga hafa gengist við því á síðustu árum að laun kennara séu allt of lág. Hin lágu laun hafa verið réttlætt með því að sveitarfélögin hafi ekki efni á betri kjörum. Með því er í raun verið að segja að sveitarfélögin séu ófær um að reka þá grunnþjónustu sem þau hafa tekið að sér fyrir íbúa þeirra. Slíkt gengur auðvitað ekki til lengdar. Við aðstæður sem þessar mun grunnþjónustan bíða skaða eða eyðileggjast með öllu. Árum saman hafa kennarar þurft að bæta fyrir getuleysi sveitarfélaga við að reka grunnskólann með ásættanlegum hætti. Nú er hinsvegar orðið ljóst að kennarar geta ekki lengur komið í veg fyrir að skólakerfið lendi í stórhættu. Nýir kennarar fást ekki til starfa, eldri kennarar heltast úr lestinni eða hverfa til annarra starfa – og þeir sem eftir standa munu ekki anna öllum þeim brýnu verkefnum sem fylgja grunnskólastarfi í landinu. 

Kennarar hafa því aðeins tvo kosti. Að yfirgefa skólana og afhjúpa þannig endanlega þá skammsýni og hyskni sem einkennir störf sveitarfélaga á þessu sviði – eða stíga fram, draga sveitarfélögin til ábyrgðar fyrir stöðunni sem upp er kominn og krefjast viðbragða.

Með undirskrift okkar á þennan lista gerum við það síðarnefnda. 


Ragnar Þór Pétursson    Contact the author of the petition